Hellismenn Landmannahelli Landmannahellir.is


Hellismenn ehf

 

 


Saga Landmannahellis

Hellismunninn

Við Landmannahelli hefur frá fornu fari verið viðkomustaður leitarmanna á Landmannaafrétti. Í Sunnlenskum byggðum V (Rangárþing II) segir svo um Landmannahelli á bls. 142: "Þegar vesturfjallið er smalað hafa fjallmenn aðalbækistöð við Landmannahelli, sem er sunnan í Hellisfjalli. Fyrr var hellirinn sjálfur, sem hvorki er stór né tilkomumikill, notaður sem hestageymsla, og voru taldir rúmast þar um 70 hestar, mátti jafnvel troða þar inn 80 ef á lá. Fyrir kom að menn sváfu í afhelli inn úr aðalhellinum, og eitt sinn var lítill kofi framan við munnann. En 1907 var á landssjóðs kostnað byggt sæluhús vestan við hellinn og endurbyggt síðar..." og síðar í sömu málsgrein; "Austan við hellinn eru þrjú fjárbyrgi og hafa verið þar síðan eftir fellinn 1882 er hætt var að nota fjárbyrgi þau sem leifar sjást af undir austustu Sauðleysu, 3-4 km suðvestar. Árið 1966 var sett stór fjárgirðing kring um Sátu, sunnan Helliskvíslar gegnt hellinum". En um stærð hellisins nú á dögum má sjá að hann hlýtur að hafa hrunið saman eða minnkað með árunum eða kannski bara verið stærri hér áður í hugum manna þegar um var talað í byggð. Hann er í raun aðeins lítill skúti! Fjallmenn á Landmannafrétti hafa undanfarin ár eingöngu nýtt aðstöðuna við Landmannahelli meðan á fjallferð stendur og gista þeir þar í fimm nætur við góðan aðbúnað.

  Gamla gangnamannahúsið

Gamla gangnamannahúsið byggt 1907

Copyright © 2006-2024 KRA | Forsíða | Veftré | English | Póstur